Ertu gagnkynhneigður?

Auðvitað skellti maður sér í miðborgina í gær, með reiðhjólahjálm og punghlíf til að vera ekki laminn í klessu. Það var ofboðslega mikið af fólki í bænum og flestir gengu þarna um með bros á vör og glottu við mér og múnderingunni minni. Ég settist svo við þriðja mann inn á einn af flottari stöðum bæjarins. Keypti mér öl með röri því flaskan rakst alltaf í hjálminn þegar ég reyndi að drekka af stút.

Þar sem ég sat þarna vindur sér að mér falleg miðaldra kona. Hún horfir á mig með bros á vör og segir svo "ertu gagnkynhneigður?"

Ég stoppaði í miðju kafi og svelgdist á bjórsopanum, hvers vegna sá konan ástæðu til að spyrja mig að þessu? Var það hjálmurinn sem lét hana efast, eða var það stóri pungurinn undir hlífinni sem mamma keypti mér þegar ég var að æfa fótbolta með Neista á unglingsárunum? Eða var það kannski vegna þess að ég drakk bjór með röri?

Ég ákvað að veita konunni athygli og svaraði henni kurteislega, jú jú ég er gagnkynhneigður og sagði svo hvers vegna ertu að spyrja mig af því? Hún horfði á mig til baka, teygði sig í öxlina á yngri konu og sagði svo.....þú setur öryggið á oddinn, þetta er dóttir mín, endilega spjallaðu við hana. Svo slengdi hún stelpugreyinu sem var rjóð í andliti eftir afskipti móður sinnar í sætið við hliðina á mér og lét sig svo hverfa.

Ég og stelpan horfðumst í augu og fengum svo hrikalegt hláturskast, en spjölluðum svo saman.

Þessar mömmur eru yndislegar hugsaði ég þegar ég borðaði pönnukökurnar hjá henni í morgun, ekki með hjálm en ennþá með punghlíf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband